Vöruflutningabifreið lenti utan vegar í aftakaveðri í Skötufirði um hálftíuleytið í gærkvöldi. Ökumaður tilkynnti sjálfur um slysið en mikill viðbúnaður var þar sem sem mikill vindur var og ekkert skyggni og óvitað hvort maðurinn hefði slasast illa. Þá vissi ökumaðurinn ekki nákvæmlega hvar í Ísafjarðardjúpi hann var vegna skyggnis.
Björgunarsveitir á Ísafirði og Súðavík voru kallaðar út en áður en þær gátu lagt af stað kom vegfarandi að. Í ljós kom að maðurinn var ekki mikið slasaður og var því ákveðið að ökumaðurinn æki á móti sjúkrabíl í átt til Hólmavíkur þar sem veður var skárra í þá áttina.
Um sama leyti skall þó á aftakaveður á þeim slóðum líka og tóku ökumennirnir á endanum ákvörðun um að gista í Reykjanesi. Sjúkrabíllinn hins vegar sneri við og komst við illan leik til baka til Hólmavíkur.