Fyrsta áfanga af þremur í Frumkvöðlakeppni Innovit 2008 fyrir íslenska háskólanema og nýútskrifaða lauk nú á miðnætti. Alls bárust yfir eitt hundrað viðskiptahugmyndir í keppnina.
Þátttakendur að baki viðskiptahugmyndunum eru á þriðja hundrað og bárust viðskiptahugmyndir úr öllum háskólum landsins og að auki frá íslendingum í nokkrum erlendum háskólum. Keppnin er haldin að fyrirmynd sambærilegrar keppni við MIT háskóla í Bandaríkjunum, MIT $100K Entrepreneurship Competition.Í þessum fyrsta hluta keppninnar verða 10 framsæknustu viðskiptahugmyndirnar verðlaunaðar með peningastyrk að upphæð 20.000 krónur. Í síðari hluta keppninnar er svo keppt um bestu viðskiptaáætlunina og hlýtur verðlaunahugmyndin Gulleggið 2008 ásamt 1.500.000 krónum í peningaverðlaun og ráðgjöf hjá sérfræðingum Innovit að verðmæti 500.000 krónur.
Í fyrsta áfanga keppninnar þurftu keppendur að skrá sig til leiks og skila inn tveggja blaðsíðna yfirlitságripi um viðskiptahugmyndina sína. Í öðrum áfanga keppninnar þurfa keppendur að skila inn fullmótaðri viðskiptaáætlun, fyrir 25. mars næstkomandi. Einungis 10 viðskiptahugmyndir komast í þriðja og úrslitaáfanga keppninnar, þar sem keppendur þurfa að kynna viðskiptahugmynd sína fyrir dómnefnd sem samanstendur af fjárfestum og fagaðilum.