Áherslur í öryggis- og varnarmálum hafa breyst mjög á undanförnum árum. Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Alyson J.K. Bailes, gestakennara í stjórmálafræði við Háskóla Íslands, en hún hélt erindi á vegum Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum undir yfirskriftinni „Nýjar áherslur í varnarmálum, eru þær góðar fyrir konur?“
Frá því kalda stríðið leið undir lok hafa hugmyndir um öryggismál þjóða tekið töluverðum breytingum. Áherslan hefur færst frá milliríkjadeilum og yfir í átök innan ríkja, hvort sem er uppreisnir eða borgarastyrjaldir. Þá hafa skilgreiningarnar í auknum mæli færst frá hugmyndum um þjóðaröryggi og yfir í öryggi einstaklingsins og möguleika hans til að lifa lífinu til fullnustu og í þriðja lagi nýjar ógnir líkt og hryðjuverkastarfsemi. Alyson segir þessar breyttu áherslur á vissan hátt til bóta fyrir konur þar sem þær feli í sér að vandamál sem snerta konur fá frekara vægi.
Þá segir hún líklegra að konur geti haft eitthvað um það að segja hvernig málum er háttað til dæmis við uppbyggingu ríkja eftir átök.
Öryggisvæðing er það hvernig hlutir sem áður hafa ekki verið álitnir öryggismál eru færðir undir þá skilgreiningu. Hún nefndi dæmi af umhverfismálum sem hérlendis eru mikilvægt öryggismál og eins fuglaflensu sem ríki gætu skilgreint sem öryggismál ef það þjónaði hagsmunum þeirra.
Alyson segir öryggisvæðingu oft geta þjónað góðum tilgangi. „Jafnvel í Evrópu finnum við gjarnan fyrir því að með því að skilgreina eitthvað sem öryggis- eða varnarmál virðist það sjálfkrafa fá forgang þegar kemur að úthlutun fjármagns,“ segir hún.
Hættan er hins vegar sú að með því að öryggisvæða til að mynda löggæsluna og tollgæslu í kjölfar árásanna 11. september 2001 hefur hún fengið töluvert meira fjármagn en til dæmis heilsugæslan eða umhverfisvernd. „Ég persónulega mundi vilja sjá mun fleiri atriði skilgreind sem öryggismál ef það yrði til þess að fá stjórnendur til þess að hugsa meira um þessi mýkri og „ókarlmannlegri“ mál og forðast með því til lengri tíma stærri vanda.“