Brot á reykbanni getur varðað sviptingu rekstrarleyfis

Lögreglan hefur heimild til að svipta skemmti- og veitingastaði rekstrarleyfi gerist eigendur þeirra uppvísir að ítrekuðum brotum á reykingalögunum svokölluðu. Þá geta ítrekuð brot á lögunum einnig haft áhrif á endurnýjun rekstrarleyfis, en þau eru gefin út á fjögurra ára fresti.

Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga sinna eftirliti með að banninu sé framfylgt á veitinga- og skemmtistöðum. Berist lögreglu tilkynning frá heilbrigðiseftirliti um að brotið sé gegn banninu getur lögregla svipt viðkomandi stað rekstrarleyfinu. Lögregla grípur þó aldrei til slíkra aðgerða nema að undangengnum viðvörunum, en slíkt úrræði er einungis notað þegar tilmæli lögreglu eru hunsuð ítrekað.

Samkvæmt heimildum 24 stunda hefur umhverfissvið Reykjavíkurborgar ekki skilað inn athugasemdum til lögreglunnar vegna reykingaherbergis á Barnum við Laugaveg. Eigendur skemmtistaðarins hafa mótmælt reykingabanninu í verki og hafa heimilað reykingar á Barnum og fleiri stöðum sem þeir hafa í rekstri. Þeir hafa ítrekað kosið að hunsa tilmæli borgarinnar um að loka umræddu herbergi.

Rósa Magnúsdóttir, deildarstjóri hollustuháttadeildar umhverfissviðs Reykjavíkurborgar, kvaðst ekki meðvituð um að borgin gæti leitað þessara leiða til að framfylgja banninu en sagði að borgin myndi hafa samband við lögreglu vegna málsins í kjölfarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert