Hæstiréttur hefur fallist á kröfu Tryggingamiðstöðvarinnar um að Eimskip greiði tryggingafélaginu andvirði saltfiskfarms, sem Eimskip tók að sér að flytja frá Reykjavík til Caserta á Ítalíu árið 2006 en farminum var rænt skömmu áður en hann komst á áfangastað.
Þarf Eimskip samkvæmt dómnum að greiða Tryggingamiðstöðinni 10 milljónir króna ásamt vöxtum.
Lagt var til grundvallar að ránið hefði átt sér stað á óvöktuðu bílastæði við þjónustumiðstöðina Teano Ovest. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að meðal þeirra sem ynnu við flutninga á Ítalíu væri umrætt svæði þekkt fyrir vopnuð ráð á förmum flutningabíla. Hefði því verið komið upp vöktuðum bílastæðum á Ítalíu fyrir flutningabíla en bifreiðastjóranum, sem annaðist flutning farmsins, hefði ekki verið gefin sérstök fyrirmæli um að nota slík bifreiðastæði.
Hæstiréttur segir, að leggja verði til grundvallar að óvaktaða bifreiðastæðið, sem bílstjórinn notaði, hefði ekki verið eins öruggt og vöktuð bifreiðastæði. Hefði Eimskip því ekki sannað að tjónið yrði rakið til atvika sem félagið gat ekki komist undan eða af afleiðingum þeirra sem Eimskip gat ekki hindrað.