Konur eru í miklum minnihluta sjómanna en þær ná því sjaldnast að vera yfir 10% þeirra. Ástæðu þess að konur sækja ekki sjóinn í meira mæli en þær gera er einna helst að finna í menningarbundnum þáttum, það er að segja, í skiptingu vinnunnar í karla- og kvennastörf og takmörkuðum vilja fólks til að haga sér í ósamræmi við ímynd karlmennsku og kvenleika. Þetta er niðurstaða verkefnis sem Helga Katrín Tryggvadóttir nemi í mannfræði við HÍ hefur unnið á vegum samgönguráðuneytisins.
Samgönguráðuneytið hefur látið gera úttekt á störfum kvenna á skipum í íslenskri útgerð. Verkefnið er hluti af framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum.
Markmið verkefnisins var að kanna fjölda þeirra kvenna sem sækja sjóinn á Íslandi, starfsaðstæður þeirra og upplifun þeirra af starfinu og viðhorfi samfélagsins til þess.
Konur eru afar fámennar í yfirmannsstöðum á sjó, en verið getur að það endurspegli fremur litla hlutdeild þeirra í störfum á sjó heldur en að vera merki um að konur sem vinni á sjó eigi erfitt með að vinna sig upp í starfi. Konur dreifast nokkuð jafnt á allar gerðir skipa, en þær eru fjölmennastar á fiskiskipum, að því er fram kemur á vef samgönguráðuneytisins.
Allar kvennanna sem tekin voru viðtöl við létu vel af því að vinna á sjó og engin þeirra áleit sig hafa liðið fyrir það að vera kona í því „karlastarfi“ sem sjómennskan er álitin vera. Reynsla kvenna af störfum á sjó er afar misjöfn, bæði eftir löndum og jafnvel eftir áhöfnum. Algengara virðist þó að hún sé jákvæð en neikvæð. Eins virðast konur finna fremur fyrir jákvæðum viðbrögðum en neikvæðum gagnvart vinnu sinni. Hversu erfitt þeim reynist að stunda sjómennsku með börn fer mikið eftir því hversu mikið maki og nánasta fjölskylda geta hlaupið undir bagga. Almennt séð fannst þeim fátt koma í veg fyrir að konur gætu ekki stundað sjóinn í meira mæli.
Aukin þátttaka kvenna í fiskveiðum hefur venjulega átt sér stað
þegar þörf er á vinnuafli og tengist venjulega uppgangi í greininni.
Sjóferðardögum kvenna fækkaði frá á áttunda áratugnum og til dagsins í dag, á
sama tíma og veiðar hafa dregist saman. Endurnýjun vinnuafls innan
sjómannastéttarinnar hefur ekki verið mikil á undanförnum árum og því er stéttin
að eldast. Ungar konur sækja því ekki í miklum mæli inn í greinina fremur en
ungir menn. Þar að auki virðast konur ekki vera hvattar til þess að fara á
sjóinn í sama mæli og karlar. Hefðbundin þekking á sjómennsku sem gengið hefur
mann fram að manni fer því frá föður til sonar, fremur en til dóttur. Þetta kemur fram á vef samgönguráðuneytisins.