Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur sem haldinn var í dag var samþykkt tillaga Kjartans Magnússonar, stjórnarformanns, og Júlíusar Vífils Ingvarssonar um að fundargerðir stjórnar félagsins verði gerðar opinberar og birtar á heimasíðu fyrirtækisins.
Gert er ráð fyrir að ef rætt er um viðkvæmar viðskiptaupplýsingar á stjórnarfundum sé hægt að óska eftir því að farið sé með þær sem trúnaðarmál og þær séu þá ekki skráðar í opinbera fundargerð.
Á fundinum var einnig samþykkt bókun þar sem stjórn OR segist fagna þeirri áherslu í frumvarpsdrögum til laga á orkusviði, að tryggja með afgerandi hætti að eignarhald orkuauðlinda í opinberri eigu verði það áfram. Stjórn muni fjalla um frumvarp til orkulaga í heild sinni þegar það berst Orkuveitu Reykjavíkur með formlegum hætti.