Lýsa miklum efasemdum um skólafrumvörp

Samband íslenskra sveitarfélaga lýsir miklum efasemdum um áform í skólafrumvörpum, sem liggja fyrir Alþingi, um að gerð verði krafa um meistarapróf úr viðurkenndum háskóla til að öðlast kennsluréttindi í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum. 

Sérstaklega gagnrýnir sambandið áform um lengingu leikskólakennaranáms en sú breyting er lítt rökstudd í frumvarpinu.

Stjórn sambandsins segist hafa lýst yfir vilja til þess að taka ásamt menntamálaráðuneytinu þátt í eflingu kennaramenntunar. Fulltrúi sambandsins tók þátt í gerð frumvarpsins en í upphaflegri frumvarpstillögu var gengið út frá þeirri forsendu að menntunarkröfur til leikskólakennara yrðu óbreyttar.

Sambandið segir á heimasíðu sinni, að einungis þriðjungur starfsmanna í leikskólum hafi leikskólakennaramenntun og sé brýnna verkefni að fjölga menntuðum leikskólakennurum en að auka menntunarkröfur til þeirra sem útskrifast úr leikskólakennaranámi.

Að áliti sambandsins er mikilvægt við núverandi aðstæður að fjölga valkostum í námi fyrir annað starfsfólk leikskóla og skoða sérstaklega stöðu og réttindi starfsmanna í leikskólum sem hafa langa starfsreynslu.

Heimasíða Sambands íslenskra sveitarfélaga

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert