Skýrsla nefndar, sem forsætisráðherra skipaði til að fara yfir Breiðavíkurmálið, er nú við það að verða tilbúin. Róbert R. Spanó lagaprófessor og formaður nefndarinnar, segir að unnið sé að því að prófarkalesa skýrsluna og að að því loknu verði hún kynnt fyrir forsætisráðherra. Það sé svo hans að taka ákvörðun um kynningu á henni.
Róbert segist ekkert geta upplýst um niðurstöður skýrslunnar eins og stendur en segir hana vera mjög umfangsmikla, nokkur hundruð síður með fylgiskjölum. Þá segist hann gera ráð fyrir að forsætisráðherra fái skýrsluna í hendur upp úr 10. febrúar.