„Við erum búnir að gera áhættumat fyrir Suðvesturlandið miðað við núverandi siglingar. Nú eru að opnast skipasiglingarnar frá Múrmansk í Rússlandi vestur um haf sem breyta áherslum viðbragðsaðila,“ segir Kristján Geirsson, deildarstjóri á sviði umhverfisgæða hjá Umhverfisstofnun, um breytt siglingamynstur í námunda við Ísland.
Verið er að byggja geysistóra gámaflutningahöfn í Múrmansk, en ráðgert er að hún muni geta meðhöndlað þrjár milljónir gámaeininga á ári. Höfnin er hugsuð til pólsiglinga og mun anna 500 skipum á ári.
Til samanburðar er áætlað að 300.000 til 350.000 gámaeiningar séu afgreiddar hjá íslensku gámafyrirtækjunum á ári um land allt.
Síðar kunni að opnast siglingaleið frá Kyrrahafi um Síberíuströnd.
Aðspurður hvort búist sé við mikilli umferð skipa frá Kína, sökum þess að siglingaleiðin um norðurskautið opnast samfara hopi íssins, segir Kristján óvíst hvort sú leið verði greiðfær og þá hvort umferð fari hjá Íslandi. Bæði Norðmenn og Rússar hafi áætlanir um að reisa stórar umskipunarhafnir og það geti haft áhrif á siglingarmynstrið.
Kristján gerði grein fyrir breyttu áhættumati á vel sóttu málþingi á vegum Stofnunar Sæmundar fróða í gær, ásamt Ásgrími L. Ásgrímssyni, yfirmanni vaktstöðvar siglinga hjá Landhelgisgæslunni.
Aukin skipaumferð eykur líkur á alvarlegu mengunarslysi við Íslandsstrendur, áhætta sem gæti valdið hagkerfinu miklum búsifjum, með tilliti til þess að siglt er um hrygningarsvæði helstu nytjastofnanna suður af landinu. Það er m.a. af þessu sökum sem uppi eru hugmyndir um að færa siglingaleiðirnar lengra frá landinu, en Umhverfisstofnun er kölluð til verði stór óhöpp.