Lögreglan á Blönduósi hafði afskipti af manni á fertugsaldri á Skagaströnd í gærkvöldi. Maðurinn hafði átt við rafmagnstöflu í kjallara hússins sem hann býr í. Fyrir utan að taka rafmagnið af húsinu, þar sem hann leigir aðra af tveimur íbúðum, fór rafmagnið af símstöð sem þjónar Skagaströnd.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Blönduósi mun maðurinn hafa verið undir áhrifum fíkniefna er hann tók til við að eiga við rafmagnstöfluna. Ekki er ljóst hvernig honum tókst að slökkva á símstöðinni þar sem hún er til húsa á öðrum stað. Símasambandslaust mun hafa verið á Skagaströnd á meðan starfsmenn Rafmagnsveitunnar fundu út úr vandræðunum.
Þetta mun hins vegar ekki vera í fyrsta sinn sem lögreglan hefur þurft að hafa afskipti af manninum.