Útlendingar sitja við annað borð

Árvakur/Steinunn

 Ríkisstjórnin er gagnrýnd fyrir að taka ekki nóg tillit til erlends fiskverkafólks í mótvægisaðgerðum sínum en hún hefur varið 58,5 milljónum til Fjölmenningarseturs á Vestfjörðum. Peningarnir eru nýttir til langtímaaðgerða, t.d. hefur einn starfsmaður verið ráðinn í þróunarverkefni á Egilsstöðum ásamt því að pólskumælandi einstaklingur hefur bæst við starfsfólk stofnunarinnar á Ísafirði, m.a. til að sinna upplýsingagjöf, að sögn Elsu Arnardóttur framkvæmdastjóra.

Svanfríði Jónasdóttur, bæjarstjóra á Dalvík, finnst óskynsamlegt að setja allt féð á einn stað. „Ég hefði viljað að þessum peningum væri dreift meira um landið, þannig að Alþjóðahús í Reykjavík og Alþjóðastofa á Akureyri fengju sinn skerf,“ segir hún og bætir við að þessar stofnanir sinni fleira fólki en Fjölmenningarsetur.

„Það væri meiri mótvægisaðgerð að skapa ný tækifæri fyrir innflytjendur. Rannsóknir sýna að innflytjendur eru hlutfallslega meiri frumkvöðlar en innfæddir. Þess vegna væri mikilvægt að koma upplýsingum um nýsköpunaraðgerðir markvisst á framfæri við útlendinga,“ segir Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahúss.

Svanfríður bendir á að erlent vinnuafl skiptist í þrennt: Þá sem eru með tímabundið atvinnuleyfi, fólk sem hefur skuldbundið sig til að vera hér áfram og farandverkafólk sem kemur frá Evrópusambandsríki. Fólk með tímabundið dvalarleyfi, skilyrt við atvinnurekanda, getur misst leyfið fái það ekki aðra vinnu fljótlega. Paul Nikolov telur að ef slíku starfsfólki er sagt upp vegna ástæðna eins og samdráttar, eigi fyrirtækið að bera ábyrgð á að finna fólkinu nýja vinnu. „Fyrst og fremst þarf þó tímabundið atvinnuleyfi að vera óbundið atvinnurekanda. Það myndi leysa þennan vanda, þar sem útlendingar sætu þá við sama borð og Íslendingar,“ segir Paul.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert