Vill að Alþingi láti sig Evrópumál varða

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á ráðherrafundi í Genf.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á ráðherrafundi í Genf. AP

„Ég valdi að vera með sérstaka skýrslu um Evrópumál í þinginu til að skapa umræður um þau. Alþingi hefur látið sig þessi mál mjög litlu varða,“ segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sem kynnti í gær skýrslu sína um Ísland á innri markaði Evrópu fyrir Alþingi. Þetta er í fyrsta sinn sem utanríkisráðuneytið vinnur skýrslu um Evrópumál sérstaklega. „Evrópumálin varða okkar framtíðarhagsmuni og skipta máli varðandi það hvernig við gætum þeirra á alþjóðavettvangi. Þingið getur verið miklu virkara en það er og tekið þær stefnur sem eru í undirbúningi innan ESB til umræðu.“

Hún segir að öllum ætti að vera ljóst hversu mikil áhrif samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) hefur haft á framþróun á Íslandi. „Þegar verið var að ræða samninginn á sínum tíma þá snerust umræðurnar um fisk, niðurfellingu á fiskitollum og um að reikna út ávinninginn sem við hefðum í krónum og aurum út frá því. Í dag er óvinnandi vegur að meta þann ávinning sem við höfum haft af samningnum. Ég held að ekkert eitt skref sem við höfum nokkurn tímann stigið í utanríkismálum hafi verið jafnáhrifamikið og þessi samningur. Hann hefur haft áhrif á öll svið íslensks samfélags.“

Athygli vekur að ekkert er fjallað um gjaldmiðla í skýrslunni þrátt fyrir miklar umræður um mögulega upptöku evru hérlendis að undanförnu. Ingibjörg segir það eðlilegt. „Við erum ekki með evruna í neinni sérstakri skoðun í utanríkisráðuneytinu en það er hins vegar verið að skoða þau mál í viðskiptaráðuneytinu. Þetta mál er ekki á okkar verksviði og því sá ég ekki ástæðu til þess að fara sérstaklega inn á það í skýrslunni.“

Í skýrslunni segir að skörun sé milli EES-samningsins og 22 af 35 köflum sem ESB skiptir aðildarviðræðum sínum við ný ríki upp í. Ingibjörg segir það sýna hversu nálægt kjarna ESB Ísland sé komið í gegnum EES-aðildina. „Í okkar tilviki þá liggur fyrir að 22 af þessum 35 köflum eru í lagi. Við erum því búin að taka upp mjög mikið af regluverki ESB, þó ég geti ekki slegið prósentutölu á það. En hlutfallið er hærra en ef 22 yrði deilt í 35 því við erum líka búin að taka upp hluta innan hinna kaflanna. Það er vegna þessa sem framkvæmdastjórar innan ESB, eins og Ollie Rehn sem er með stækkunarmálin, hafa sagt að það tæki mjög skamman tíma að leiða aðildarviðræður við Ísland til lykta. Menn hafa nefnt hálft ár.“

Að mati Ingibjargar mun endurskoðaður sáttmáli ESB hafa breytileg áhrif á samskipti sambandsins við Ísland. „Hann hefur áhrif á okkur að því leytinu til að hann eykur völd þjóðþinganna og Evrópuþingsins. Það er skiljanleg breyting frá bæjardyrum aðildarríkjanna en gerir okkur hins vegar erfiðara fyrir vegna þess að þá erum við ekki lengur bara að semja við ráðherraráðið og framkvæmdastjórnina, heldur mun Evrópuþingið geta haft áhrif á hvernig reglugerðir og lög breytast. Þar eigum við mjög litla aðkomu nema ef tekið verður upp frekari samstarf í gegnum stjórnmálaflokkana. Við verðum alltaf að vera á vaktinni og reyna að átta okkur á því hvernig við komum okkar hagsmunum á framfæri við ESB vegna þess að það sem þar gerist mun verða að veruleika okkar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka