Hinn þekkti lögfræðingur og prófessor í refsirétti við Harvard-háskóla, Alan Derschowitz, kemur hingað til lands í byrjun apríl til að halda námskeið í Skálholti á vegum Skálholtsskóla fyrir lögmenn og dómara. Mun hann við sama tækifæri halda opinn fyrirlestur á Hilton hótel Reykjavík á vegum Lögmannafélags Íslands. Það verður auglýst nánar síðar. Eru laganemar háskólanna á Íslandi sérstaklega hvattir til að hlýða á fyrirlesturinn. Samson eignarhaldsfélag er fjárhagslegur bakhjarl að heimsókninni.
Derschowitz lætur sér hins vegar fátt mannlegt óviðkomandi og hefur m.a. látið til sín taka í málefnum Ísraels og Palestínu og hefur skrifað fjölmargar kennslubækur í sínu fagi. Þá skrifaði hann árið 2000 bók um morðmál Gamla testamentisins svo dæmi sé tekið. Bókin heitir á frummálinu Genesis of Justice. 10 Stories of Injustice That led to the Ten Commandments and Modern Morality and Law. Sú bók vakti einmitt áhuga Kristins Ólasonar, rektors Skálholtsskóla, á manninum og setti hann sig í samband við hann og bauð honum í kjölfarið að koma hingað til lands.
„Ég kynntist bókum hans þegar ég kenndi við guðfræðideildina í háskólanum í Freiburg í Þýskalandi,“ segir Kristinn. „Hann hafði þá gefið út bók um morðmál í Gamla testamentinu sem vakti mikla athygli, ekki síst meðal guðfræðinga og lögfræðinga.“ Kristinn segir bókina hafa verið mjög áhugaverða og setti hann sig því í samband við höfundinn, Derschowitz, og skrifuðust þeir á. „Í fyrra spurði ég hann svo hvort hann vildi koma til Íslands og hann var ákaflega áhugasamur um það.“