Alvarlega veikir á Kilimanjaro

 Háfjallaveiki gerði heldur betur vart við sig í tíu manna hópi Íslendinga sem lagði á Kilimanjaro í september í fyrra; fjórir sneru við áður en þeir náðu tindinum og af þeim sex sem komust alla leið veiktust tveir alvarlega.

Vel á annað hundrað Íslendingar gengu á Kilimanjaro, hæsta fjall Afríku í fyrra, og svo lengi sem ekki sýður endanlega upp úr í Kenía, má búast við að fjöldinn verði svipaður á þessu ári. Fjallið rís í tæplega 6.000 metra hæð og því er töluverð hætta á að fólk sem er óvant slíkri hæð veikist af háfjallaveiki. Í samtali við Morgunblaðið lögðu tveir úr hópnum, geðlæknarnir Engilbert Sigurðsson og Andrés Magnússon, mikla áherslu á mikilvægi þess að taka sér nægan tíma í hæðaraðlögun, helst einn til tvo aukadaga umfram þann tíma sem flestar ferðaskrifstofur mæla með.

Fyrirfram hefði mátt búast við að hópnum sem Engilbert og Andrés voru í myndi ganga allt í haginn. Flestir í hópnum voru í góðu líkamlegu formi, m.a. tveir maraþonhlauparar og landsliðsmaður í skvassi. Þegar upp var staðið voru það hins vegar þeir sem voru í besta forminu sem veiktust heiftarlegast - en þeir voru reyndar meðal þeirra sex sem fóru alla leið á tindinn.

Hópurinn samanstóð af fimm hjónum, sex læknum ásamt mökum, en læknarnir eru meðlimir í Félagi íslenskra fjallalækna (FÍFL). Hópurinn bjó þar af leiðandi yfir þokkalegri kunnáttu til að meta heilsu leiðangursmanna og lækna ýmis konar krankleika auk þess sem hópurinn var ágætlega birgur af lyfjum sem slá á einkenni hæðarveikinnar. Hópurinn fór með virtri ferðaskrifstofu, Exodus sem skiptir við leiðsögumenn frá African Walking Tours á Kilimanjaro. Gangan á tindinn tók 4½ sólarhring sem er mjög hefðbundinn tími. Þá fór hópurinn í hvívetna eftir leiðbeiningum fararstjóranna.

Hæðarveikinnar gætti fyrst hjá Andrési og Engilberti þegar þeir komu í tjaldbúðir í 2.600 metra hæð. Engilbert átti í erfiðleikum með að sofna, en leið vel, og Andrés fann að hann andaði ekki eðlilega og truflaði það einnig svefn hjá honum. Öndunarerfiðleikar og svefnraskanir eru hvoru tveggja algengir kvillar í mikilli hæð. Næsta dag, rétt áður en hópurinn kom í næstu tjaldbúðir (Kikelawa) í 3.700 metra hæð ágerðust öndunarerfiðleikarnir verulega hjá Andrési. Hann svimaði verulega og tók að kenna illþyrmilega til ógleði. „Þetta var ekkert ósvipað því að verða sjóveikur. Mikil ógleði og mikil og óþægileg uppköst. Þetta var ógeðslega vont og ég var alveg ákveðinn í að snúa við næsta morgun. En þá kom Engilbert og talaði mig ofan af því,“ segir Andrés. Það hafi verið furðulegt að um leið og honum leið fullkomlega bölvanlega hugsaði hann mikið um hversu náttúrfegurðin allt um kring væri gríðarleg. „Stjörnuhimininn þarna er svo magnaður að maður ætlar varla að trúa því.“ Um kvöldið tók Andrés lyfið Acetazólamíð (Diamox) sem háfjallafarar nota gjarnan. Lyfið er í raun glákulyf og virkar þannig að það heldur eftir koltvísýringi í blóðinu og örvar af þeim sökum öndunina. Lyfið sló hins vegar lítt á einkennin hjá Andrési. Hann kastaði endurtekið upp og leið mjög illa. Í kjölfarið tók hann bólgueyðandi stera, Dexametasón. „Og það var algjört kraftaverkalyf,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka