Björgunarsveitarmenn í fjórum björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar eru á Fagradal þar sem ökumenn tugi bifreiða hafa lent í vandræðum vegna ófærðar. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er ófært yfir Fagradal og þungfært er á Fjarðarheiði og í Oddskarði.
Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu hefur björgunarsveitin Ársól verið að aðstoða ökumenn síðan snemma í morgun á Fagradal og eru þrjár björgunarsveitir til viðbótar komnar til starfa þar enda margir í vandræðum. Eru það björgunarsveitirnar Hérað, Geisli og Brimrún. Eru björgunarmenn á leiðinni á sérútbúnum jeppum og auk þess er snjóbíll frá Egilsstöðum á leið á svæðið.Að sögn Ólafar Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa Landsbjargar hefur sumum bifreiðum verið ekið út af, aðrar eru fastar og enginn kemst leiðar sinnar. Meðal annars eru snjóruðningstæki föst í þvögunni á Fagradal.
Veður fer versnandi á Austurlandi og má gera ráð fyrir því að skyggnið sé lítið og færð spillist, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.