Dómsmálaráðherra segir snúið út úr orðum hans

Björn Bjarnason
Björn Bjarnason mbl.is/Sverrir

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir að snúið hafi verið út úr orðum hans í kvöldfréttatíma RÚV í gærkvöldi þar sem vísað var til Silfur Egils og rætt var um varalið lögreglu. „Ég sé, að fréttastofa hljóðvarps ríkisins er tekin til við að snúa út úr orðum mínum. Aldrei hefur vakað fyrir mér, að lögfesta neina skyldu fyrir björgunarsveitir til að breytast í varalið. Hugmyndin um liðið byggist á því, að lögregluyfirvöldum sé heimilt að kalla menn til starfa við sérstakar aðstæður, en mönnum sé að sjálfsögðu í sjálfsvald sett, hvort þeir gangi í liðið eða ekki.

Þessi útúrsnúninga-árátta fréttamanna veldur áhugaleysi mínu á að ræða við þá. Hvers vegna spurði fréttamaðurinn mig ekki að því, hvort ætlunin væri að lögbinda skyldu björgunarsveita til að verða varalið lögreglu? Hvers vegna hlustar fréttamaðurinn ekki á það, sem ég sagði í Silfri Egils?

Í fréttinni á ruv.is segir undir lokin: „Formaður Landsbjargar segir að tækju félagar í björgunarsveitum þátt í varaliðinu gætu þeir gert það sem einstaklingar þó ekki væri undir merkjum björgunarsveitanna.“ Þetta er kjarni málsins en ekki hitt, að lögskylda eigi björgunarsveitarmenn til að fara í óeirðavörslu, enda sagði ég í Silfri Egils, að fastalið lögreglu yrði látið sinna hinum erfiðu verkefnum en varaliðið ætti að manna hin daglegu varðstörf.

Í ávarpi í 80 ára afmæli Slysavarnafélags Íslands sagði ég: „Björgunarsveitir eru boðnar og búnar til að aðstoða lögreglu, þegar til þeirra er leitað. Ég tel brýnt, að hið góða samstarf þessara aðila fái viðurkenningu alþingis með ákvæði í lögum um varalið lögreglu,“ segir á vef Björns.

Vefur Björns Bjarnasonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert