Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sagði í Silfri Egils á RÚV í gær að samstarfið í ríkisstjórninni væri gott en hann hefði aldrei útilokað samstarf við Alþýðubandalagið sáluga eða Vinstrihreyfinguna – grænt framboð.
Fram kom hjá Birni að hann liti á málefnin í samstarfinu. Hann hefði náð sínum málum fram í samstarfi við Samfylkinguna og hún gæti sagt slíkt hið sama. Auðvitað væri ágreiningur enda ólíkir stjórnmálaflokkar rétt eins og Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sem hefðu verið í ágætu stjórnarsamstarfi í 12 ár.
Björn sagði að hann og Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, hefðu verið taldir talsmenn sögulegra sætta í Sjálfstæðisflokknum. Gunnar Thoroddsen hefði notað grein, sem hann hefði skrifað 1979, þegar hann myndaði ríkisstjórn með Alþýðubandalagsmönnum og sagt að harðjaxlarnir á Morgunblaðinu væru talsmenn þess að unnið væri með Alþýðubandalaginu.
„Ég hef aldrei útilokað það að Sjálfstæðisflokkurinn og þeir sem voru í Alþýðubandalaginu eða eru núna Vinstri grænir gætu átt saman,“ sagði Björn. Í því sambandi minnti hann á að í fyrra hefði hann setið í Evrópunefnd og hann og Einar K. Guðfinnsson hefðu komist að sameiginlegri niðurstöðu með Ragnari Arnalds og Katrínu Jakobsdóttur. Nefndin hefði verið sammála um alla meginþætti málsins.