Hefur aldrei útilokað samstarf við Vinstri græna

Björn Bjarnason.
Björn Bjarnason. mbl.is/Sverrir

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sagði í Silfri Egils á RÚV í gær að samstarfið í ríkisstjórninni væri gott en hann hefði aldrei útilokað samstarf við Alþýðubandalagið sáluga eða Vinstrihreyfinguna – grænt framboð.

Fram kom hjá Birni að hann liti á málefnin í samstarfinu. Hann hefði náð sínum málum fram í samstarfi við Samfylkinguna og hún gæti sagt slíkt hið sama. Auðvitað væri ágreiningur enda ólíkir stjórnmálaflokkar rétt eins og Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sem hefðu verið í ágætu stjórnarsamstarfi í 12 ár.

Björn sagði að hann og Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, hefðu verið taldir talsmenn sögulegra sætta í Sjálfstæðisflokknum. Gunnar Thoroddsen hefði notað grein, sem hann hefði skrifað 1979, þegar hann myndaði ríkisstjórn með Alþýðubandalagsmönnum og sagt að harðjaxlarnir á Morgunblaðinu væru talsmenn þess að unnið væri með Alþýðubandalaginu.

„Ég hef aldrei útilokað það að Sjálfstæðisflokkurinn og þeir sem voru í Alþýðubandalaginu eða eru núna Vinstri grænir gætu átt saman,“ sagði Björn. Í því sambandi minnti hann á að í fyrra hefði hann setið í Evrópunefnd og hann og Einar K. Guðfinnsson hefðu komist að sameiginlegri niðurstöðu með Ragnari Arnalds og Katrínu Jakobsdóttur. Nefndin hefði verið sammála um alla meginþætti málsins.

Undrandi á VG

Hins vegar sagðist Björn vera undrandi á hvað VG héldi sig til baka og hvað það virtist vera erfitt fyrir flokksmenn að fara yfir þann þröskuld að vera í þeirri stöðu að hrópa og kalla í það að axla ábyrgð. Í því sambandi vísaði hann á hátterni Svandísar Svavarsdóttur í byrjun október sl. áður en hún fór í meirihluta, þögnina sem fylgdi henni í meirihluta og hvernig hún byrjaði að tala þegar hún var komin úr meirihlutanum. „Það er eins og þetta fólk treysti sér ekki í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn,“ sagði Björn Bjarnason.

Varalið lögreglu

Í máli Björns kom jafnframt fram að hann væri með frumvarp um varalið lögreglu í smíðum. Það gengi út á það að lögreglan hefði heimildir til þess að kalla til liðsafla vegna stjórnunar mannfjölda, við almannavarnaástand og aðrar sérstakar aðstæður. Fastaliðið gæti þá sinnt erfiðari verkefnum en til staðar væri liðsafli sem gæti sinnt ýmsum daglegum störfum. Hugmyndin væri að óska eftir liðsafla frá björgunarsveitum, slökkviliði og úr hópi fyrrverandi lögreglumanna.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert