Stýrihópur um málefni Reykjavík Energy Invest (REI) mun að öllum líkindum skila skýrslu sinni á borgarráðsfundi á fimmtudaginn kemur. Samkvæmt heimildum Fréttavefjar Morgunblaðsins er vinnu stýrihópsins þegar lokið að mestu og einungis eftir að ná samkomulagi um orðalag og framsetningu.
Enn á stýrihópurinn eftir að halda lokafundinn og undirrita skýrsluna en hópurinn mun hittast þessa vikuna til að ganga frá því.
Niðurstöðum stýrihópsins munu fylgja lögfræðiálit um ábyrgð þeirra sem
fóru með umboð borgarinnar í REI-málinu.