Snjóflóð féll á snjóruðningsbíl

Mikill snjór er á norðan- og austanverðu landinu. Þessi mynd …
Mikill snjór er á norðan- og austanverðu landinu. Þessi mynd var tekin á Akureyri í dag. mbl.is/Hreiðar

Um hádegisbilið í dag féll snjóflóð í Mjósundunum við Stöðvarfjörð og féll það á snjóruðningsbíll Vegagerðarinnar. Ökumanninn sakaði ekki en bíllinn sem er stór vörubíll með snjótönn snérist og endaði þversum á veginum.

Vegurinn lokaðist í um eina klukkustund á meðan verið var að ryðja hann og losa snjóruðningsbílinn.

Björgunarsveitamenn í björgunarsveitinni Geisla á Reyðarfirði þurftu að beita fortölum til að fá fólk sem sat fast í bílalest á Fagradal til að snúa við. „ Við fórum skömmu fyrir hádegi til að koma skikki á þetta og fá fólkið sem var komið upp á dag til að snúa við," sagði Heiðar Árdal Jóhannsson formaður Geisla.

Hann sagði að um 12 fólksbílar og nokkrir sendibílar hefðu verið í bílalestinni en að fremstu bílarnir hefðu setið fastir. „Það var náttúrulega alveg kolvitlaust veður þarna," sagði Heiðar.

Hann bætti því við að hjálparsveitin hefði fengið snjóruðningsbíl Vegagerðarinnar til að ryðja bílalestinni braut til baka til byggða. „Þegar við fórum framhjá veðurskiltin stóð að það væri ófært á dalinn, ég veit ekki hvort hunsaði það bara eða hvernig það var. Síðan kom það fyrir að fólk neitaði bara að snúa við en við náðum nú loksins til að tala fólk til og fá það til að snúa við," sagði Heiðar.

 Heiðar sagði að einhverja bíla hefði þurft að skilja eftir á dalnum en megninu af þeim hafi tekist að snúa við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert