Nokkuð skiptar skoðanir komu fram á Alþingi um frumvarp, sem Ellert B. Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, mælti fyrir í dag um að forseti Íslands gegni áfram störfum þótt dvelji tímabundið í útlöndum og handhafar forsetavalds taki aðeins við forsetahlutverki þegar forseti getur ekki gegnt embættinu vegna sjúkleika eða af öðrum ástæðum.
Ellert sagði m.a. forseti Íslands hefði öll tök á því að fylgjast með og sinna skyldum sínum þótt hann færi til útlanda í nokkra daga.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að þetta væri ekki meðal þeirra atriða sem brýnast væri að breyta varðandi forsetaembættið. Þótt íslenska fyrirkomulagið sé nokkuð sérstakt þá undirstriki það þrískiptingu valdsins en handhafar forsetavalds eru forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar.
Birgir spurði hann m.a. hvernig forseti ætti að staðfesta lög og ákvarðanir framkvæmdavaldsins, eins og lög mæla fyrir, í ljósi þess að forseti Íslands væri erlendis stóran hluta ársins. Hugsanlega mætti leysa málið með rafrænni undirskrift „en ég veit ekki hvort mönnum þætti fara vel á því að staðfesta lög með SMS," sagði Birgir.
Hann sagði að til greina kæmi að fella úr stjórnarskrá það skilyrði, að forseti staðfesti lög með eiginhandarundirskrift sinni.
Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, sagði að tímabært væri að hefja umræður um stjórnarskrárbundið hlutverk forsetans. Sagði hann m.a. að ræða mætti, hvort auka eigi völd forseta, sem fái í raun hlutverk forsætisráðherra og verði kosinn beinni kosningu, líkt og gert er í Frakklandi.