Stendur ekki til að skipta um gjaldmiðil

Ráðherrar á Alþingi.
Ráðherrar á Alþingi. mbl.is/ÞÖK

Ekki stendur til að gera breytingar á gjaldmiðlinum á næstunni, sagði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, á Alþingi í dag. Þar vildu þingmenn stjórnarandstöðunnar að forsætisráðherra talaði skýrt um hver stefna ríkisstjórnarinnar væri í Evrópumálum og gjaldeyrismálum í ljósi ummæla annarra ráðherra um gjaldeyrismál undanfarið.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, sagði að utanríkisráðherra hefði í þingumræðum í síðustu viku sagt að krónan væri viðskiptahindrun, viðskiptaráðherra notaði hvert tækifæri til að tala krónuna niður og um helgina hefði menntamálaráðherra sagt að fyrirtæki ættu að fá að gera upp í evrum. Þá hefði Bjarni Benediktsson, formaður utanríkismálanefndar, sagt í viðtali í Fréttablaðinu að Samfylkingin skapi óvissu í Brussel með ógætilegu tali. 

Spurði Steingrímur hvort einhver stefna væri til í þessum málum innan ríkisstjórnarinnar eða hvort hún réðist af því hver talaði hverju sinni.

Geir H. Haarde sagði að formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins gangi fullkomlega í takt í þessum málum eins og flokkurinn allur. Sagði hann að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, hefði sagt að fyrirtæki ættu að fá að gera upp í annarri mynt en krónum að uppfylltum þeim skilyrðum sem lög um ársreikninga gera ráð fyrir. 

Geir sagði, að nú hefðu 212 fyrirtæki fengið heimild samkvæmt þessum lögum til að gera upp í öðrum gjaldmiðli en krónunni. Varðandi  fjármálafyrirtækin hefði ársreikningaskráin kveðið upp úrskurð um að fyrirtækin gætu gert upp í evrum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, og fármálaráðherra væri nú með kæru vegna málsins til meðferðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert