Taflfélagið Hellir stóð fyrir alþjóðlegu unglingamóti um helgina. Mótið fór fram í húsakynnum Skákskóla Íslands og voru 28 keppendur skráðir til leiks, þar af tíu erlendir frá fjórum löndum; Danmörku, Svíþjóð, Skotlandi og Þýskalandi. Flestir af bestu íslensku skákmönnunum, fæddir 1991 eða síðar, tóku þátt.
Um var að ræða stærsta og sterkasta alþjóðlega skákmót sem fram hefur farið hérlendis fyrir unglinga.
Bestum árangri af íslensku keppendunum náði Sverrir Þorgeirsson en hann endaði í 1.-4. sæti. Með honum í efsta sæti urðu Svíinn Jakob Aperia, Þjóðverjinn Maximilian Berchtenbreiter og Daninn Martin Storgaard. Þeir hlutu 4,5 vinninga í sex skákum. Helgi Brynjarsson og Bjarni Jens Kristinsson urðu í 5.-6. sæti með 4 vinninga.
Íslensku skákmönnunum gekk almennt vel á mótinu. Patrekur Maron Magnússon hækkaði mest þeirra í alþjóðlegum skákstigum eða um 31 stig, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir um 26 stig og Helgi Brynjarsson um 23 stig.
Að sögn Gunnars Björnssonar, formanns Hellis, tókst mótið í alla staði mjög vel og er vonast til að framhald verði á því á komandi árum.