Sýknaður af ákæru fyrir kynferðisbrot

Héraðsdómur Reykjaness sýknaði í dag karlmann af ákæru fyrir kynferðisbrot. Maðurinn var ákærður fyrir að hafa beitt stúlku kynferðislegri áreitni en þau unnu í sama fiskvinnslufyrirtæki á Suðurnesjum.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa káfað á stúlkunni í nokkur skipti og reynt að kyssa hana í ágúst 2006. Maðurinn viðurkenndi háttsemina að hluta en sagði að hún hefði verið með samþykki stúlkunnar.

Í dómnum segir, að það liggi fyrir að á nokkurra daga tímabili eftir miðjan ágúst 2006 fóru fram einhver kynferðisleg samskipti á milli mannsins og stúlkunnar á sameiginlegum vinnustað þeirra að og einnig þyki, með framburði þeirra og vitna í málinu, ljóst að stúlkan var í tengslum við þessa atburði í nokkru uppnámi og að minnsta kosti einu sinni grátandi.

Engin vitni voru að því að maðurinn hafi þvingað stúlkuna til samskiptanna, eða að henni hafi verið þau á móti skapi, nema af frásögn hennar sjálfrar. Af skýrslu stúlkunnar fyrir dómi megi ráða að hún hafi verið mótfallin þessum samskiptum og ítrekað beðið ákærða að hætta. 

Maðurinn neitaði hins vegar staðfastlega, að hafa þvingað stúlkuna á nokkurn hátt til þessara samskipta og haldið því fram að um gagnkvæma hegðun hafi verið að ræða. 

Taldi dómurinn ekki, að ákæruvaldinu hefði tekist að sanna sök mannsins þannig að ekki verði véfengt með skynsamlegum rökum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert