Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, telur að Íslendingar eigi að feta sig frá kvótakerfi í mjólkurframleiðslu líkt og aðrar Evrópuþjóðir séu að gera.
„Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að við þyrftum að endurskoða þetta kerfi [kvótakerfið]. Á margan hátt hamlar það bæði hagræðingu og framförum í landbúnaði. Mér sýnist að við séum að ýmsu leyti á hættulegri braut með þetta kerfi. Við erum að millifæra milli framleiðenda gríðarlega fjármuni í gegnum kvótaviðskipti. Við eigum að gera svipað og aðrar Evrópuþjóðir og feta okkur frá kvótakerfinu,“ sagði Haraldur.
Hann tekur þó fram að áfram verði hið opinbera að styðja bændur, líkt og gert sé við alla bændur í hinum vestræna heimi.