Gistinætur á hótelum í desember síðastliðnum voru 54.200 en voru 53.600 í sama mánuði árið 2006. Gistinóttum hefur því fjölgað um rúmlega 1% á milli ára og er fjölgunin mest á Suðurlandi, Norðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu.
Fjölgun gistinátta á hótelum í desember má rekja til Íslendinga, gistinóttum Íslendinga fjölgar um 21% en gistinóttum útlendinga fækkar um 8% á milli ára.
Hlutfallslega fjölgaði gistinóttum mest á Norðurlandi, úr 1.800 í 2.200 eða um tæp 24%. Gistinóttum á Suðurlandi fjölgaði í desember um tæp 20% á milli ára, úr 2.700 í 3.200. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði gistinóttum í desember um rúmt 1% frá fyrra ári, úr 43.300 í 43.700.
Á Austurlandi fækkaði gistinóttum í desember hinsvegar um tæp 54% á milli ára, eða úr 1.300 í 600. Á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða voru 4500 gistinætur í desember 2007 sem er sami fjöldi og árið áður, samkvæmt því sem fram kemur á vef Hagstofu Íslands.