Starfsgreinasambandið segir kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins, sem staðið hafa yfir frá því í desember, miða hægt. Næsti samningafundur hefur verið boðaður á fimmtudag. Segir á vef sambandsins að einstök sérmál starfsgreina hafa verið leyst út af samningaborðinu en lítill árangur verið af viðræðunum að öðru leyti.
Ríkisstjórnin hafnaði aðkomu að lausn deilunnar í byrjun janúar. Kjaradeilunni var vísað til ríkissáttasemjara þann 10 janúar s.l. og hefur frá þeim tíma verið á forsjá hans. Sameiginlegar kröfur á vettvangi ASÍ sem Starfsgreinasambandið á aðild að, fylgdu kröfugerð þess á borð ríkissáttasemjara og miðar varlega, samkvæmt vef Starfsgreinasambandsins.
„ Frá því deilan kom til ríkissáttasemjara hefur einkum verið fjallað um aðferðafræði, þ.e. tímalengd væntanlegs samnings, nú síðast um samning til eins árs, með möguleika á framlengingu um önnur tvö að uppfylltum vissum efnahagslegum forsendum um kaupmátt og að stöðugleiki náist og þá hvernig þessar forsendur eru skilgreindar.
Segja má að samkomulag sé í bili um forsenduákvæði og tímalegnd, að því gefnu að samkomulag náist einnig um annað innihald væntanlegs kjarasamnings, þ.e. launaramma, lágmarkslaun og taxtahækkanir. Sú umræða er skammt á veg komin og þess vegna af og frá að halda á lofti tölum í því sambandi að öðru leyti en því að kröfugerð Starfsgreinasambandsins er enn í fullu gildi inn í þá umræðu," samkvæmt vef Starfsgreinasambandsins.