Launahækkanir á almennum vinnumarkaði verða ákveðnar eftir á en ekki fyrirfram í þeim kjarasamningum sem nú er rætt um, að því er kom fram í fréttum Útvarpsins.
Fram kom í Útvarpinu, að rætt sé um að lágmarkslaun hækki og verði um 145.000 krónur á mánuði og þeir sem fá aðeins greitt eftir töxtum fái 15 til 20.000 krónur ofan á taxtana. Ef samið verði til þriggja ára leggist 7500 krónur á taxtana 1. mars 2009 og aðrar 7500 krónur 2010.
Þá er rætt um svonefnda baksýnisspegla sem virki þannig, að laun hækki um 4% þann 1. mars en þó með hliðsjón af launaþróun hjá hverjum einstökum launamanni á tímabilinu 1. mars 2007 til 1. mars 2008. Kannað sé hversu mikið launin hafa hækkað á þessu tímabili. Hafi viðkomandi t.d. notið launaskriðs og laun hans hafa hækkað umfram 4% fái hann enga launahækkun. Hafi launin hins vegar ekkert hækkað fái hann öll 4%.