Þær voru „ljónstyggar og fráar á fæti,“ og alls ekki á því að láta ná sér, kindurnar sjö sem bændur í Mýrdalnum sóttu í Hafursárgil í gær, þar sem þær hafa haldið sig í vetur. Erfitt var um vik í snjó og hálku og urðu bændur að grípa til þess ráðs að snara kindurnar til að ná þeim.
Ólafur Þorsteinn Gunnarsson bóndi á Giljum, sem átti flestar ærnar, sagði þær hafa lagt talsvert af, en sumar þó verið ágætlega á sig komnar.