Um 60% íslenskra ungmenna á aldrinum 18-20 hafa verið boðin fíkniefni og um 38% þeirra þekkja vel hvernig nálgast má fíkniefni hér á landi. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri rannsókn sem unnin var á vegum Rannsóknaseturs í barna- og fjölskylduvernd (RBF).
„Mikill meirihluti ungmenna á þessum aldri fær fræðslu um skaðsemi áfengis eða skaðsemi ólöglegra fíkniefna. Stór hluti fær hins vegar eingöngu fræðsluna í skólum, þannig að ég er hrædd um að margir fengju ekki neina fræðslu um þessi mál ef engin fræðsla væri í skólum,“ segir Jóhanna Rósa Arnardóttir, forstöðumaður RBF og höfundur rannsóknarinnar, sem kynna mun rannsóknarniðurstöðurnar í málstofu sem RBF og félagsráðgjafarskor Háskóla Íslands standa fyrir nk. þriðjudag í stofu 101 í Odda milli kl. 12-13.
Jóhanna bendir á að 85% svarenda hafi reynst ánægð með fræðsluna um skaðsemi fíkniefna, 5% óánægð og 10% hvorki né. Á sama tíma reyndust 80% ánægð með fræðslu um skaðsemi áfengis, 7% óánægð og tæp 14% hvorki né.