Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að gera megi því skóna að staðan í samningaviðræðunum skýrist í dag og á morgun og þá verði hægt að meta hvort hægt verði að halda áfram á næsta stig.
Samtök atvinnulífsins funda áfram með fulltrúum Rafiðnaðarsambandsins, Samiðnar og VM í dag auk þess sem fulltrúar ASÍ bætast í hópinn frá því í gær. Á morgun verður síðan fundað með samninganefndum Starfsgreinasambandsins, Flóabandalagsins og VR. Auk kjaramála var í gær rætt um að koma á laggirnar áfallatryggingasjóði og er hugmyndin að hann hafi það verkefni að veita þjónustu og stuðning í veikindum.
Vilhjálmur segir að verið sé að reyna að ná almennri samstöðu um ákveðin mál. Í því sambandi nefnir hann þrennt: Í fyrsta lagi að lágmarkslaun fyrir fulla dagvinnu hækki í 145 þúsund krónur á mánuði. Í öðru lagi að lægstu kauptaxtar verði færðir nær greiddum launum. Það verði gert með 15.000 kr. greiðslu ofan á taxta nú, 7.500 kr. hækkun 1. maí 2009 og 7.500 kr. hækkun 1. mars 2010. Í þriðja lagi nefnir hann að ná þurfi til þeirra sem sitja eftir í launaskriðinu. Þeir sem ekki hafi fengið 4% hækkun frá áramótum 2006/2007 fái nú hækkun sem nemi mismuninum. Ákveðin lágmarkshækkun yrði síðan ákveðin fram í tímann. Sú tala gæti hækkað í almennu launaskriði en hækkun launþega á tímabilinu drægist frá. Ef samið verður til þriggja ára verður ákveðið eftir eitt ár hvort halda eigi áfram næstu tvö ár á grundvelli þess hvort kaupmáttur hefur haldist og hvort verðbólga hefur minnkað.
Vilhjálmur segir að til þess að komast út úr mikilli verðbólgu og launaskriði á vinnumarkaðnum verði menn að halda sig við lægri tölur sem samræmist lítilli verðbólgu. Til að það gangi upp þurfi að forgangsraða hækkunum þannig að tekið verði á lægstu laununum og á þeim sem setið hafa eftir í launaskriðinu. Fyrir þá sem eru betur settir sé forgangsatriði að ná niður verðbólgunni og það sé þeirra mesta kjarabót.