Um þriðjungur þriggja og tólf ára barna fór ekki í forvarnarskoðun hjá tannlækni á síðasta ári þrátt fyrir að slík þjónusta hafi verið ókeypis frá 1. júní sl. með samningi heilbrigðisráðuneytisins og Tannlæknafélags Íslands. Athugun hefur þó leitt í ljós að mun fleiri þriggja ára börn en áður fóru í slíka skoðun í kjölfar samningsins og hefur átakið því skilað góðum árangri að því leyti.
Hólmfríður Guðmundsdóttir, tannlæknir hjá Miðstöð tannverndar, segir að árangurinn í heild mætti vera betri en bendir á að aðeins rúmlega hálft ár sé síðan samningurinn kom til og því betri heimta að vænta. Hins vegar segir hún það sigur að fá fleiri yngri börn í skoðun hjá tannlækni en áður. „Mjög stór hluti barna undir fjögurra ára aldri hefur hingað til ekki farið til tannlæknis, svo þessi samningur er ákveðinn hvati til að fara fyrr,“ segir Hólmfríður.