Breyta gæti þurft lögum um fiskveiðistjórnun og opna kvótakerfið að einhverju leyti, að því er fram kom í máli Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins, á Alþingi í gær. Jón Magnússon, þingmaður Frjálslyndra, kallaði eftir afstöðu Guðna til álits mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna varðandi íslenska kvótakerfið en frjálslyndir og VG hafa í sameiningu lagt fram þingsályktunartillögu um að hlíta eigi niðurstöðu nefndarinnar og innan Samfylkingarinnar hafa einnig heyrst raddir um að hugsanlega gæti þurft að breyta kvótakerfinu.
Forystumenn Framsóknarflokksins hafa hingað til ekki gagnrýnt kvótakerfið enda voru lögin sett í tíð fyrrum formanns flokksins, Halldórs Ásgrímssonar, í sjávarútvegsráðuneytinu.
Guðni sagði niðurstöðu mannréttindanefndarinnar vera mjög alvarlega. „Hún fjallar um mannréttindi á Íslandi og íslenska ríkisstjórnin og Alþingi Íslendinga verða í vondum málum ef þetta mál verður ekki tekið föstum tökum,“ sagði Guðni og átaldi stjórnarflokkana fyrir að ætla ekkert að aðhafast. „Ég er í engum vafa um það sem formaður Framsóknarflokksins að við verðum að taka á í þessu máli.“
Jón Magnússon sagði stjórnvöld hafa fengið 180 daga til að bregðast við áliti nefndarinnar. „Nú eru 130 dagar eftir þannig að ekki er vanþörf á því að við ræðum þetta mál,“ sagði Jón og taldi að með liðsstyrk Framsóknar gæti myndast meirihluti á þingi fyrir að „virða mannréttindi“.
Þingmenn Sjálfstæðisflokks minntu hins vegar á að aðeins væri um álit að ræða og það væri því ekki bindandi fyrir stjórnvöld. Arnbjörg Sveinsdóttir, formaður sjávarútvegsnefndar þingsins, sagði álitið vera til meðferðar hjá sjávarútvegsráðuneytinu og að mikilvægt væri að skoða þau lögfræðilegu álitaefni sem hefðu komið fram. „Eins og allir vita sem skoðað hafa það álit þá eru litlar vísbendingar um hvað mannréttindanefndin ætlast til að við á Alþingi gerum til að breyta löggjöfinni eða öðrum atriðum,“ sagði Arnbjörg.