Íslendingar sýna forkosningunum sem nú fara fram í Bandaríkjunum vegna forsetakjörsins þar í haust mikinn áhuga, og þá kannski ekki síst gengi Hillary Clintons.
Ástæður þessa áhuga kunna að vera ýmsar, en Steinn Jóhannsson, stjórnmálafræðingur við Háskólann í Reykjavík, nefnir að Íslendingar hafi veitt því mikla athygli er Hillary Clinton kom í heimsókn hingað til lands 1999, og síðan ásamt manni sínum, Bill, fimm árum síðar.
Hillary Clinton var þá hér í heimsókn ásamt bandarískri þingnefnd, og John McCain, sem nú getur talist öruggur um að verða forsetaefni Repúblíkanaflokksins, kom þá einnig hingað til lands.
Steinn segir ennfremur að það kunni að útskýra áhuga Íslendinga á kosningunum í Bandaríkjunum nú, að við urðum fyrst þjóða í heiminum til að kjósa konu forseta, og nú eigi Hillary Clinton möguleika á að verða forseti Bandaríkjanna fyrst kvenna.