REI skýrslan áfellisdómur

Stýrihópurinn fellir áfellisdóm í REI skýrslunni svokölluðu.
Stýrihópurinn fellir áfellisdóm í REI skýrslunni svokölluðu. mbl.is/Ómar

Í skýrslu stýrihóps sem fjallaði um samruna REI og GGE mun koma fram að hópurinn telur að verkferlar og valdmörk hafi verið óskýr og fellir áfellisdóm um alla stjórnsýslu málsins. Ákvarðanir voru að mati hópsins teknar á fullnægjandi umræðu og að málsaðilar hafi brugðist trausti.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 sagði, að í skýrslunni sem birt verður á morgun standi að stórar og  afdrifaríkar ákvarðanir voru teknar án umræðu eða samþykkis kjörinna fulltrúa og að kynningarferli hafi verið verulega ábótavant.

Fram kom í Kastljósi Sjónvarpsins, sem hafði fengið drög að lokaskýrslu starfshópsins í hendur, að fulltrúi FL-Group hafði beina aðkomu að gerð þjónustusamningsins milli Reykjavík Energy Invest og Orkuveitu Reykjavíkur. Aðkoma FL-Group hafi verið mikil og jafnvel ráðandi í samningagerðinni.

Í drögunum, sem Kastljós vitnaði í, segir meðal annars að mikilvægt að menn læri af þeim fjölmörgu mistökum sem gerð hafi verið samningum  og ákvarðunum um sameininguna. Þá segist hópurinn sammála um að trúnaðarbrestur hafi orðið milli æðstu stjórnenda REI og Orkuveitunnar annars vegar og ákveðinna borgarfulltrúa hins vegar. Brýnt sé að endurvinna það traust. 

Stöð 2 sagði að tekið væri  sérstaklega fram að skýrslan og niðurstaða stýrihópsins sé málamiðlun meðlima hópsins og að farinn hafi verið meðalvegur í orðalagi hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert