Stór sending af þýfi stöðvuð

Lögreglan vinnur hörðum höndum við að skrásetja varninginn. Mynd þessi …
Lögreglan vinnur hörðum höndum við að skrásetja varninginn. Mynd þessi var tekin er annað mál af svipuðum toga kom upp. mbl.is/Július

Lögreglan kom í veg fyrir að umtalsvert magn af þýfi, meðal annars úr innbroti í íþróttavöruverslun í Hafnarfirði, yrði sent úr landi með póstþjónustu í fyrradag. Lögreglan komst á snoðir um 12 pakka sem samtals vega um 130 kg og átti að senda til Póllands.

Þrír menn voru handteknir á pósthúsi á Suðurnesjum og í kjölfarið voru tveir aðrir færðir til yfirheyrslu. Lögreglan í Hafnarfirði tók skýrslur af mönnunum en þeim síðan sleppt.

Lögreglan vinnur nú að rannsókn málsins en megnið af þýfinu mun hafa verið fatnaður og merkjavara. Að sögn heimildarmanns Fréttavefjar Morgunblaðsins mun vera mikið starf framundan við að skrásetja varninginn og ekki er víst að hann sé allur illa fenginn og þó svo sé þá er ekki að því hlaupið að sanna að svo sé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert