Landsvirkjun hefur tekið aftur til skoðunar áform um byggingu Búðarhálsvirkjunar. Þó er eftir sem áður stefnt að því að byggja fyrst nýjar virkjanir í neðri hluta Þjórsár í því skyni að selja orku til hátækniiðnaðar á Suður- og Suðvesturlandi.
Fram kemur á vef Landsvirkjunar að áform um byggingu Búðarhálsvirkjunar hafi verið lögð til hliðar á sínum tíma þar sem hún þótti ekki nægilega hagkvæm. Nú sé hins vegar talið að mögulegir orkukaupendur séu líklegir til að greiða hærra verð en áður hafi verið reiknað með og að því geti sala á raforku frá Búðarhálsvirkjun nú orðið ábatasöm.
Þá sé ljóst að eftirspurn eftir raforku er mun meiri en sem nemur orkugetu þeirra þriggja virkjana í neðri hluta Þjórsár sem nú eru í undirbúningi, þ.e. Hvamms-, Holta- og Urriðafossvirkjun.
Landsvirkjun telur þó skynsamlegt að draga ákvörðun um byggingu Búðarhálsvirkjunar þar til niðurstöður í rammaáætlun vegna hennar liggi fyrir þannig að hægt verði að tryggja sem mesta hagkvæmni virkjunarinnar.