Þetta forsetakosningaár ætlar að reynast spennandi í Bandaríkjunum, og allt útlit er fyrir að forsetakjörið sjálft í nóvember reynist jafn spennandi og tvísýnt og forkosningar demókrata eru núna.
John McCain hefur nú tryggt sér um það bil helming þeirra fulltrúa sem hann þarf að hafa á komandi flokksþingi til að hljóta útnefningu sem forsetaefni Repúblíkanaflokksins. En getur hann verið viss um sigur á Hillary Clinton eða Barak Obama í forsetakosningum?
Fjöldi skoðanakannana hefur verið gerður undanfarið til að leita svars við einmitt þessari spurningu, segir Steinn Jóhannsson, stjórnmálafræðingur við Háskólann í Reykjavík. En niðurstöðurnar hafa verið misvísandi.
Steinn telur m.a. að sú athygli sem Demókrataflokkurinn fær núna vegna þess hve tvísýnar forkosningarnar eru geti skilað væntanlegum frambjóðanda flokksins, hvort sem það verður Clinton eða Obama, auknu fylgi, kannski ekki síst meðal ungs fólks, sem virðist fylkja sér um Demókrataflokkinn.