Áhersla verði lögð á opin og lýðræðisleg vinnubrögð

Ólafur F. Magnússon.
Ólafur F. Magnússon. Árvakur/Kristinn

Ólafur F. Magnússon borgarstjóri segist ekki telja að skýrsla stýrihóps um Reykjavik Energy Invest muni hafa áhrif á  meirihlutasamstarfið í borginni og að allir kjörnir borgarfulltrúar hafi lært af málinu. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður borgarráðs, segist ekki munu axla ábyrgð á málinu enda hafi hann í engu farið út fyrir sitt umboð.

Ólafur F. Magnússon segir skýrsluna ber skýran vott um þá þverpólitísku samstöðu sem ríki í borgarstjórn Reykjavíkur og að lögð verði áhersla á að opin og lýðræðisleg vinnubrögð verði höfð að leiðarljósi í borgarmálum framvegis. 

Í skýrslunni kemur fram, að trúnaðarbrestur hafi orðið á milli tiltekinna starfsmanna Reykjavik Energy Invest og Orkuveitu Reykjavíkur annars vegar og tiltekinna borgarfulltrúa hinsvegar. Þegar Ólafur var spurður hvort einhver yrði látinn axla ábyrgð á þessu, sagðist hann ekki efast um að einhver verði látinn gera það. Það væri hins vegar hlutverk stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að taka ákvörðun um slíkt.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður borgarráðs, sagðist ekki myndi axla ábyrgð á málinu enda hefði hann í engu farið út fyrir sitt umboð sem borgarstjóri.

Sagði Vilhjálmur, að það hefði verið mjög óviðeigandi, að fulltrúi FL Group hefði átt beina aðild að viðræðum um þjónustusamning milli REI og Orkuveitu Reykjavíkur, eins og rakið er í skýrslu stýrihópsins. Vilhjálmur sagðist ekki hafa vitað af þessu á sínum tíma.

Vilhjálmur viðurkenndi aðspurður, að málið hefði veikt hann sem stjórnmálamann. Sagðist hann ætla að halda áfram að vinna góð verk í þágu almennings og byggja upp traust.

Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi VG og formaður stýrihópsins, sagðist ánægð með að samstaða hefði náðst milli alla flokka um málið og skýrslu hópsins. Sagði hún, að nú yrði farið í að vinna eftir tillögum stýrihópsins til að tryggja að mál af þessu tagi komi ekki upp aftur.

Svandís sagði að formennskan í stýrihópnum væri með erfiðari verkum, sem hún hefði tekið að sér. Sagði Svandís, að skýrslu stýrihópsins verði ekki stungið niður í skúffu heldur dreift á fyrirtæki borgarinnar svo þau geti dregið lærdóm af.

Svandís segir það aldrei hafa verið hlutverk stýrihópsins að fjalla að kveða upp dóma yfir einstaklingum, en hins vegar komi það skýrt fram að umboð hefði átt að vera skýrara að því er varðar umboð borgarstjóra og að það hefði átt að sækja til borgarstjórnar eða borgarráðs.

Þá segir í skýrslunni að einn af þeim pólitísku lærdómum sem draga megi af málinu sé sá að allir fulltrúar þurfi að tryggja að þeir hafi pólitískan meirihluta á bak við sig við stórar ákvarðanatökur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka