Ber til baka ummæli WWF um þorskinn

AP

Einar K. Guðfinnsson, sjávar- og landbúnaðarráðherra, sagði á Alþingi í dag, að hann væri að undirbúa að skrifa bréf til sænskra stjórnvalda til að bera til baka ummæli samtakanna WWF um að allur þorskur í heiminum væri í hættu. Sagði Einar, að þetta væri óhróður sem bregðast yrði við.

Einar var að svara fyrirspurn frá Gunnari Svavarssyni, þingmanni Samfylkingarinnar sem vildi vita hvort eitthvað væri unnið að því innan ráðuneytisins að koma íslenskum þorski betur á markaðskortið sem fiski veiddum af ábyrgð og úr fiskistofnum sem reynt sé að stýra af ábyrgð.

Vísaði Gunnar m.a. til þess að World Wide Fund for Nature teldu og flokkuðu þorsk á þann hátt, að ekki sé æskilegt fyrir neytendur á erlendum mörkuðum að beina sjónum sínum að slíkum kaupum enda sé þorskurinn í útrýmingarhættu.

Gunnar sagði að sænska fiskistofan, Fiskeriverket, hefði tekið undir þetta á beinan og óbeinan hátt. Eins væri áberandi í umræðu við sænskar verslunarkeðjur, að þegar talað sé um fiskistofna í hættu sé verið að tala um verndun „síðustu" fiskana en Íslendingar töluðu um verndun til að koma í veg fyrir hrun fiskistofna.

„Ég er ekki viss um að allir átti sig á því að við erum að tala um himinn og haf í nálgun okkar hér á Íslandi til þessara mála miðað við umræðuna í t.d. Svíþjóð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert