Búið að opna Reykjanesbraut

Hellisheiði er lokuð
Hellisheiði er lokuð Árvakur/Ómar

Búið er að opna Reykjanesbrautina á ný en loka þurfti veginum vegna bifreiða sem sátu fastar við Vogaafleggjara á leið frá Reykjavík. Er búið að koma bifreiðunum út af veginum og því hægt að aka þar um. Lögreglan á Suðurnesjum varar hins vegar ökumenn um að aka innan Reykjanesbæjar á fólksbifreiðum þar sem mjög slæm færð er innanbæjar.

Eftirtaldir vegir eru lokaðir: undir Hafnafjalli, Sandskeið, Hellisheiði, Þrengslin, Mosfellsheiði, Brattabrekka, Holtavörðuheiði, Fróðárheiði,Klettsháls, Breiðdalsheiði og Öxi.

Það eru snjóþekja og skafrenningur á Reykjanesbraut. Þæfingsfærði og snjókoma er víðast hvar á Suðurlandi og stendur mokstur yfir.

Á Snæfellsnesi er þungfært á öllum leiðum og stórhríð og ekkert ferðaveður. Annarstaðar á Vesturlandi er þæfingsfærð og lítið ferðaveður. Á Vestfjörðum er þæfingsfærð í Ísafjarðardjúpi,á Kleifarheiði og Ennishálsi. Snjóþekja og skafrenningur á Steingrímsfjarðarheiði og snjóþekja á flestum öðrum leiðum.

Á Norðurlandi er hálka, éljagangur og snjókoma á flestum leiðum, snjóþekja og stórhríð á Öxnadalsheiði.

Á Norðaustur- og Austurlandi flughálka er í kringum Egilstaði. Snjóþekja og hálka er á öðrum leiðum. Þungfært er á Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði, þar er verið að moka.

Á Suðausturlandi er flughált frá Höfn að Kvískerjum og frá Skaftafelli að Kirkjubæjarklaustri, á öðrum leiðum er krapasnjór, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert