Efast um umboð borgarstjóra

Andri Árnason, lögmaður, segir í minnisblaði sem hann tók saman að ósk stýrihóps borgarstjórnar um mál Reykjavik Energy Invest (REI) og Orkuveitu Reykjavíkur, (OR) að hann telji ekki að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, þáverandi borgarstjóri, hafi haft umboð á eigendafundi Orkuveitunnar til að samþykkja fyrir hönd  OR samning um samruna REI við Geysi Green Energy.

Þá telur Andri að Vilhjálmur hafi ekki heldur haft umboð til að samþykkja að leggja hlut Orkuveitunnar í Hitaveitu Suðurnesja til REI eða til að samþykkja þjónustusamning milli OR og REI með þeim skuldbindingum sem af honum leiddu.

Lára V. Júlíusdóttir, lögmaður, sem einnig sendi stýrihópnum svör við spurningum, segir m.a. að sú háttsemi þáverandi borgarstjóra að kynna málið ekki í sínum borgarstjórnarflokki hafi kostað trúnaðarbrest. Það að fjalla um mál og leita eftir sjónarmiðum samstarfsaðila sé hluti af grundvallarhugmyndum um lýðræði.

Lára segist þó telja að það atriði, að borgarstjóri hafi hvorki rætt málið í borgarráði né í borgarstjórnarflokki sínum, geti ekki eitt og sér orðið til að ógilda þær ákvarðanir sem teknar voru á fundinum. Til þess vanti mun skýrari ákvæði í sveitarstjórnarlögum og stjórnsýslulögum og skýrari línur í framkvæmd.

Í skýrslu stýrihópsins segir, að eftir á að hyggja hefði verið eðlilegt að fjalla um málið í borgarstjórn og leita samþykkis þeirra sveitarstjórna sem aðild eiga að Orkuveitunni áður en tekin var endanleg ákvörðun á eigendafundi og í stjórn Orkuveitunnar 3. október á síðasta ári. Farsælla hefði verið, að borgarstjóri hefði sótt sér umboð borgarráðs, þrátt fyrir að ráðgjöf til hans, þar á meðal frá forsvarsmönnum fyrirtækisins og borgarlögmanni, hafi verið á þann veg að ekki væri nauðsynlegt að leita slíks umboðs.

Frá fundi borgarráðs í dag þar sem skýrsla stýrihópsins var …
Frá fundi borgarráðs í dag þar sem skýrsla stýrihópsins var rædd. Árvakur/Brynjar Gauti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert