Engar sérstakar reglur varðandi forföll í flug

Frá Keflavíkurflugvelli í morgun. Myndin er tekin af vef flugvallarins.
Frá Keflavíkurflugvelli í morgun. Myndin er tekin af vef flugvallarins.

Engar sérstakar starfsreglur eru í gildi hjá Icelandair varðandi forföll farþega í flug vegna ófærðar á milli Reykjavíkur og Keflavíkur samkvæmt upplýsingum Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair.

Hann segir þó að oft fylgist það að að farþegar og áhafnir komist ekki á flugvöllinn og að veðurskilyrði séu ekki til flugtaks. Í slíkum tilfellum leysist því vandi veðurtepptra ferðalanga oft af sjálfu sér. Annars komi forfallatryggingar oft að góðum notum við slíkar aðstæður enda sé litið svo á að mæti farþegar ekki í flug sé það á þeirra ábyrgð nema sérstakar aðstæður komi til.

Reykjanesbraut var lokuð vegna ófærðar um tíma í morgun og flugfarþegi sem blaðamaður mbl.is ræddi við sagði það hafa vakið furðu sína er hann hélt á flugvöllinn um klukkan fimm í morgun að mokstur hafi þá ekki verið hafinn, þrátt fyrir fyrirsjáanlega umferð flugfarþega á þeim tíma.

Fram kemur á heimasíðu Keflavíkurflugvallar, að seinlega gekk að afísa flugvélarnar vegna mikils skafrennings og tafir urðu sökum snjóþæfings og hálku þegar flugvélum var ýtt frá landgöngubrúm Leifsstöðvar. Veðrið hafi ekki haft áhrif á flugtök og lendingar og brautum hafi verið haldið opnum þrátt fyrir erfið skilyrði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert