Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Landspítala til að greiða þremur starfsmönnum bætur vegna uppsagna en dómurinn taldi, að ekki hefði verið rétt staðið að uppsögnum starfsmannanna árið 2006. Sá sem hæstu bæturnar hlýtur fær 900 þúsund, annar fær 400 þúsund og sá þriðji 300 þúsund.
Í dómunum er m.a. vísað til dóms Hæstaréttar í máli Salmanns Tamimi, sem einnig var sagt upp hjá spítalanum og fór í skaðabótamál. Segir í dómunum, að ákvörðun um að leggja niður störf starfsmannanna hafi ekki byggð á vali milli manna, frammistöðu þeirra eða hæfileikum, heldur á því að verkefni þeirra rúmuðust ekki innan nýs skipulags.
Ljóst sé að starfssvið starfsmannanna, sem allir störfuðu á upplýsingatæknisviði Landspítala, hafi tekið breytingum í gegnum tíðina og störf þeirra ekki verið einskorðað við tiltekin verkefni sem öll voru lögð af heldur hafi sum þeirra færst annað. Hafi Landspítala verið skylt, að leggja frekara mat á hæfni starfsmannanna áður en tekin var ákvörðun um að segja þeim upp störfum. Þar sem slíkt mat fór ekki fram hafi uppsögnin verið ólögmæt og fólkið eigi rétt á bótum.