Farþegar Iceland Express sem eiga pantað flug frá Keflavík í dag bíða enn á Keflavíkurflugvelli eftir frekari upplýsingum um áætlaða brottför. Samkvæmt upplýsingum farþega sem blaðamaður mbl.is ræddi við hafa farþegarnir fengið upplýsingar um frekari frestun á hálftíma fresti frá því fyrir klukkan sjö í morgun.
Farþeginn kvaðst hafa mætt á flugvöllinn klukkan fimm í morgun til að hafa vaðið fyrir neðan sig en hann átti að fljúga til Kaupmannahafnar klukkan 7:15. Þá sagðist hann hafa tekið leigubíl þangað úr Reykjavík vegna ófærðarinnar og að ferðin hafi gengið vonum framar. Þó hafi verið meiri ófærð á Reykjanesbraut en í Reykjavík og það hafi vakið furðu hans að mokstur hafi ekki verið hafinn þrátt fyrir fyrirsjáanlega umferð flugfarþega.
Þá kvaðst hann hafa heyrt á flugvellinum að flugvélar Icelandair hafi komist af stað þar sem farþegar þeirra hafi verið sendir út í vélarnar og látnir bíða þar eftir því að færi gæfist til flugtaks. Farþegar Iceland Express hafi hins vegar beðið í flugstöðinni.