Gert að flytja húsið frá Laufási

Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps telur að tilboð sem kirkjuráð og stjórn prestsetra hefur gert bóndanum í Laufási í Eyjafirði  feli í sér "óaðgengilega afarkosti". Bóndanum er gert að flytja húsið sitt af jörðinni, en leigusamningurinn kveður á um að húsið skuli víkja þegar nýr prestur tekur við prestsetrinu.

Stjórn prestsetra hefur boðist til að gera fjögurra ára leigusamning við bóndann á Laufási í Eyjafirði gegn því að hann flytji húsið sitt af jörðinni. Þórarinn Ingi Pétursson, bóndi í Laufási, segir þetta tilboð fráleitt og að hann neyðist til að hætta búskap ef þetta tilboð standi. Hann segist þó enn vonast eftir að sér verði gert kleift að búa á jörðinni.


Þórarinn er sonur séra Péturs Þórarinssonar sem var prestur í Laufási, en hann lést fyrir tæplega einu ári. Þórarinn fékk á sínum tíma leyfi frá Prestsetrasjóði til að byggja sér hús á jörðinni gegn því að húsið yrði flutt þegar Pétur hætti prestskap og nýr prestur tæki við prestsetrinu.
Kirkjuráð samþykkti í lok síðasta árs að beina því til stjórnar prestssetra að Þórarni yrði boðið að leigja jörðina til búrekstrar í fjögur ár án hlunninda. Honum yrði gert að fjarlægja íbúðarhúsið af jörðinni í samræmi við samning sem gerður var þegar húsið var reist.


Um svipað leyti og þessi samþykkt var gerð fór af stað undirskriftasöfnun í prestakallinu til stuðnings Þórarni. Frumkvæði að söfnuninni hafði Guðný Sverrisdóttir sveitarstjóri á Grenivík. Um 500 manns skrifuðu undir sem Guðný segir að séu um 97% þeirra sem náðst hafi í. Jafnframt gerði sveitarstjórnin samþykkt í lok janúar þar sem skorað var á stjórn prestsetra að verða við óskum Þórarins um að hann fengi lengri leigutíma og að íbúðarhús hans fengi að standa út leigutímann.

Lárus Ægir Guðmundsson, formaður stjórnar prestsetra, segir að stjórnin hafi 25. janúar sl. samþykkt að verða við tilmælum kirkjuráðs, en það þýðir að Þórarinn þarf að flytja húsið af jörðinni. Lárus sagði að menn hefðu á sínum tíma verið hikandi við að leyfa Þórarni að byggja hús á prestsetrinu enda væru engin fordæmi fyrir slíku. Það hefði hins vegar á endanum verið gert með því skýra skilyrði að húsið yrði flutt af jörðinni áður en nýr prestur tæki við prestsetrinu. Hann segir að þessi samningur hefði verið gerður í trausti þess að að staðið yrði við hann.


Þórarinn sagði í samtali við Morgunblaðið að tilboð stjórnar prestsetra væri fráleitt og hann hefði þegar hafnað því. Ef ekki fengist önnur lausn í málinu væri ekki annað að gera fyrir sig en að setja bústofninn í sláturhús í haust og hætta búskap. Hann sagðist hins vegar ekki vera tilbúinn til að leggja árar í bát. Hann sagðist verða var við mikinn stuðning heima í héraði og þess vegna ætlaði hann að reyna að fá þessari ákvörðun breytt.

Ásta F. Flosadóttir íbúi á Höfða I í Grýtubakkahreppi hefur ritað biskupi Íslands opið bréf þar sem hún gagnrýnir harðlega afstöðu kirkjunnar í þessu máli.

"Að sama skapi er það dapurlegt að verða vitni að tilraunum þröngs hóps innan prestastéttarinnar að bola fjölskyldu séra Péturs burt úr Laufási. Þú mátt líta á þetta bréfkorn sem ákall til biskups um að koma í veg fyrir slíkar tilraunir.

Svona lítil samfélög eins og okkar þola það illa þegar sterkum stofnum er svipt í burtu. Samfélagi sauðfjárbænda blæðir þegar yngsti bóndinn með stærsta fjárbúið er skorinn við stokk. Þetta vitum við sem búum á svæðinu, við vitum hversu mikilvægur hver einstaklingur er fyrir heildina," segir í bréfinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka