Jeremy Clarkson veðurtepptur

Jeremy Clarkson varð veðurtepptur í London og kemst ekki á …
Jeremy Clarkson varð veðurtepptur í London og kemst ekki á forsýningu Top Gear-þáttar í Laugarásbíói í kvöld. BBC

Sjónvarpsmaðurinn Jeremy Clarkson, sem var væntanlegur til landsins í dag, kemur ekki þar sem hann varð veðurtepptur í London en miklar seinkanir hafa verið á flugi milli Íslands og annarra landa í dag vegna veðurs. 

Að sögn Hallveigar Andrésdóttur hjá Arctic Trucks varð Clarkson að hætta við Íslandsferðina þar sem vélin, sem hann átti að koma með er ennþá í London og hann ætlaði aðeins að  dvelja hér til morguns. 

„Hann er með mjög þétta dagskrá, okkur tókst að fá hann til þess að koma þrátt fyrir það, en því miður veðursins vegna komst hann ekki," sagði Hallveig.

Clarkson, sem er einn af stjórnendum bílaþáttarins Top Gear átti að vera sérstakur heiðursgestur á forsýningu Top Gear-þáttar í Laugarásbíói í kvöld. Þátturinn fjallar um ferð Top Gear, Toyota í Bretlandi og Arctic Trucks á Íslandi á segulpólinn í apríl á síðasta ári.

Þrátt fyrir að Clarkson komi ekki má búast við skemmtilegu kvöldi í Laugarásbíói í kvöld og að sögn Hallveigar munu Emil Grímsson, Hjalti V. Hjaltason og Haraldur Pétursson og Alum Parri frá Toyota í Bretlandi segja frá upplifun sinni af leiðangrinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert