Kjartan Magnússon, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, segir að skýrsla stýrihóps á vegum borgarstjórnar um málefni Reykjavík Energy Invest og Orkuveitu Reykjavíkur verði tekin til umfjöllunar í stjórn fyrirtækisins og að þeim ábendingum sem þar koma fram verði væntanlega fylgt.
Stjórn Orkuveitunnar kemur saman í næstu viku og segist Kjartan reikna með að skýrslan verði tekin fyrir strax þá, og að stjórnarmenn hafi þá náð að kynna sér skýrsluna.
„Og ef niðurstaðan er sú að það þurfi að bæta vinnulag þá gerum við það.“
Kjartan segir, að varðandi eitt atriði skýrslunnar, birtingu fundargerða stjórnarinnar, þá hafi það verið eitt fyrsta verk nýrrar stjórnar Orkuveitunnar að samþykkja að slíkt gert framvegis.
Í skýrslunni segir að trúnaðarbrestur hafi orðið milli tiltekinna starfsmanna Reykjavik Energy Invest og Orkuveitu Reykjavíkur annars vegar og tiltekinna borgarfulltrúa. Kjartan segir um þetta, að líkt og komi fram í skýrslunni þá sé mikilvægt að byggja þann trúnað upp aftur.
Hann segist hins vegar telja að ýmsir aðilar hafi þegar verði látnir sæta ábyrgð í málinu en útilokar ekki að það verði gert að frekara marki.