Mikil ófærð er víðast hvar á landinu og færð slæm. Hvetur Vegagerðin til þess að vegfarendur kanni færð áður en lagt er af stað. Leiðin um Sandskeið, Hellisheiði, Þrengslin,Mosfellsheiði, Brattabrekka, Holtavörðuheiði, Fróðárheiði, Súðavíkurhlíð, Óshlíð, Gemlufallsheiði, Ísafjarðardjúp, Strandir, Steingrímsfjarðarheiði,Klettsháls, Kleifarheiði, Möðrudalsöræfi, Vopnfjarðarheiði, Breiðdalsheiði og Öxi eru lokaðar.
Það eru snjóþekja og skafrenningur á Reykjanesbraut. Þæfingsfærði og snjókoma er víðast hvar á Suðurlandi og stendur mokstur yfir.
Á Snæfellsnesi er þungfært á öllum leiðum og stórhríð og ekkert ferðaveður. Annarstaðar á Vesturlandi er þæfingsfærð og lítið ferðaveður. Á Vestfjörðum er ekkert ferðaveður.
Á Norðurlandi er hálka, éljagangur og snjókoma á flestum leiðum, þæfingsfærð og stórhríð á Öxnadalsheiði, hálka og óveður á Vatnskarði.
Á Norðaustur- og Austurlandi flughálka er í kringum Egilstaði. Snjóþekja og hálka er á öðrum leiðum. Þungfært er á Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði, þar er verið að moka.
Á Suðausturlandi er flughált frá Höfn að Kvískerjum og frá Skaftafelli að Kirkjubæjarklaustri, á öðrum leiðum er krapasnjór.