Menntamálaráðherra fer ekki með samninga við opinbera starfsmenn

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi í dag að ekki væri hægt að líta svo á, að sjónarmið menntamálaráðherra væru sjónarmið ríkisstjórnarinnar varðandi þá kjarasamninga sem nú eru fyrir dyrum. Það væri hlutverk fjármálaráðherra að gera samninga við ríkisstarfsmenn.

Árni var að svara fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússyni, þingmanni VG, sem vísaði í ummæli Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, á fundi um síðustu helgi. Þar sagði Þorgerður Katrín, að kennarar hefðu dregist aftur úr í launum og ef gott fólk eigi að fást í skólana þurfi að hækka laun þar. Mikilvægt væri að laun kennara hækkuðu.

Vildi Steingrímur vita hvort ekki mætti treysta því að ríkisstjórnin væri að undirbúa umtalsverðar kjarabætur fyrir kennara. Árni sagði, að engin leið fyrir fjármálaráðherra að segja úr ræðustóli Alþingis hvernig kjarasamningar eigi að vera.

„Hvað sem líður góðum hug menntamálaráðherra verðum við að gæta að því hvernig við stöndum að okkar samningum og hvernig þeir snúa að öðrum, sem eru að semja á almenna markaðnum og reyndar öðrum á opinbera markaðnum og það gæti verið að þeir kennara, sem hafa verið að dragast afturúr í kjörum séu frekar grunnskólakennararnir en framhaldsskólakennarnir," sagði Árni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert